Hvernig verður perla til

Smellið hér til að sjá KYNNINGARMYNDBAND um hvernig glerperlur verða til.

Hélstu að þetta væri málað ?

Ekki margir átta sig á því að perlurnar eru að ÖLLU leyti handsmíðaðar úr mismunandi glerstöngum og efnum sem unnið er með á ótal vegu og alfarið í 800C° gas og súr loga.  Það tekur hæglega um 1 klst að búa til meðalstóra perlu og hún er fullunninn þegar hún kemur úr loganum.

Fyrst er glerstöngin hituð í 800°C heitum loganum þar til hún er orðin seigfljótandi.  Þá þarf að vefja henni upp á stálstöngina og mynda kúlu eða það form sem vinna á með.  Það eitt og sér að mynda kúluna getur verið mjög krefjandi því hún er ekki þrykkt í móti heldur þarf að gera hana alveg í höndunum.  Síðan er haldið áfram og allt munstrið gert í perluna.  Allan tímann er perlan glóandi heit og henni þarf að snúa  í loganum til að halda henni jafnheitri allan hringinn. Það skiftir líka máli hvar hún er í loganum svo glerið hvorki brenni né kólni of mikið.  Til að geta horft í munstrið í loganum þarf að hafa sérstök gleraugu.  Þegar lokið er við að gera munstrið  er perlunni skellt beint í 495°C heitan ofn.  Í ofninum breytist hún ekkert því hann sér einungis um að kæla niður perluna í þrepum á um 4 klst og við það herðist hún. Eftir það er hún tekin úr ofninum og tekin af járnstönginni og við tekur ferlið að gera úr henni hálsmen eða annað.

Hér er mynd af hluta af glerlagernum sem Nadine notar til að smíða perlurnar.  þetta eru bæði mismunandi gerðir af gleri og svo auðvitað mismunandi litir. Glerið er flutt inn frá nokkrum mismunandi löndum. Það er líka allt í lagi að hafa það í huga að jafnvel glerstangirnar sem eru aðkeyptar eru handsmíðaðar af handsterkum körlum sem að toga glerið heitt í sundur.

Glerið sem unnið er úr er ekki alltaf í formi glerstanga. Stundum eru þetta glerbrot eða salli eins og sést á næstu tveimur myndum.

   

Hér getur að líta gler sem að kemur í stórum kögglum og byrja þarf á því að búa til stangir úr kögglunum.

Til að kalla fram mismundi áhrif í glerinu skapa hálf göldrótt munstur þá notar Nadine stundum bæði næfur þunn gull eða silfur blöð.  Til gamans má geta að þau kaupir hún frá eldgömlu fyrirtæki í Frakklandi þar sem að þau eru handsleginn.

Til að gera mismunandi munstur í glóandi perlurnar, móta þær og vinna með á mismunandi hátt þá þarf margs konar sérhæfð verkfæri.  Hér eru nokkur af þeim…

Til að geta losað perluna af stálteininum eftir að hún kemur úr ofninum þá er byrjað á því að  dýfa endanum í leirblöndu sem að síðan harðnar.  Þetta þarf að gera daginn áður.  Þegar búið er að taka perluna af teininum er hún lögð í væga ediksýrublöndu og hreinsuð að innan.

Þegar perlan er fullgerð í eldinum þá er henni stungið beint inn í 495°C heitan ofninn. Í ofninum verður hins vegar engin breyting á perlunni. Það eina sem hann gerir er að kæla perluna niður í þrepum á 4 um klukkustundum og við það herðist hún.  Ef að perlan væri tekin beint úr eldinum og látin kólna án þess að fara í ofn þá mundi hún springa. Hér sést ofninn sem er tölvustýrður.